Verslanir á Costa Blanca svæðinu á Spáni

Mikill fjöldi verslana er á Torrevieja svæðinu og er óhætt að segja að verðlagið komi okkur Íslendingum skemmtilega á óvart. Verð á matvöru og öðrum nauðsynjavörum er töluvert lægra en gengur og gerist heima á Íslandi og má þar nefna sem dæmi að kílóið á kjúklingabringum fer allt niður í um 450 krónur.

Fjölmargir stórmarkaðir eru á svæðinu og getur verð á matvöru í þeim verið nokkuð mismunandi. Ódýrasti stórmarkaðurinn er LIDL, þar sem meira er lagt upp úr lágu vöruverði en innréttingum, vöruúrvali og þjónustu, síðan koma ALDI, Mercadona, Consum, MasyMas, SuperCor og loks Carrefour svo að nokkrir séu nefndir. Carrefour er með tvær glæsilegar verslanir á Torrevieja-svæðinu þar sem boðið er upp á allt milli himins og jarðar, í rúmgóðum húsakynnum þar sem mikil áhersla er lögð á gott vöruúrval og hagstætt verð.

Með því að gera verðsamanburð, þá er hægt að gera góð innkaup og matarreikningarnir verða þó nokkuð lægri en á Íslandi. Flestir stórmarkaðanna eru við N-332 eða sveitaveginn eins og hann er oft kallaður.  Frá La Rotonda er styst í  Consum og Mercadona en síðan eru þeir einn af öðrum á leiðinni til Torrevieja.  

Í La Zenia er  glæsileg verslunarmiðstöð sem heitir La Zenia Boulevard, þar er að finna fjöldann allan af verslunum svo sem Primark, H&M, Desigual, Zara, Jack and Jones, Adidas, Decathlon, Benetton, Berskha, C&A og stórmarkaðinn Alcampo svo einhverjar séu nefndar. Þar eru einnig fjölmargir veitingastaðir, m.a. Burger King, Subway, Fosters Hollywood, frábær tapas-staður, Lizarran og flottur leiktækjasalur.

Í Torrevieja er verslunarmiðstöð sem heitir Habaneras og eru þar allar þekktustu verslanirnar, svo sem H&M, Zara, Jack and Jones, Berskha, C&A svo nokkrar séu nefndar. Mikill   fjöldi veitingastaða er við hliðina á Habaneras og þar eru einnig stór keilu- og leiktækjasalur og bíósalir, þannig að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Í hina áttina ( suður) frá La Rotonda er að finna verslunarmiðstöðina Dos Mares í San Javier sem er í 10 km. fjarlægð. Þar er einnig fjöldi þekktra verslana og veitingastaða, bíósalir og leiktækjasalur þar sem sérstaklega er gaman að fara með yngstu kynslóðina. Í Dos Mares er stórmarkaðurinn, Eroski, þar sem er að finna mikið vöruúrval á mjög góðu verði. Þar við hliðina er hin glæsilega sportvöruverslun, Decathlon þar sem hægt er að fá íþróttavörur á ótrúlegu verði.

Mjög rúmgóð og glæsileg verslunarmiðstöð, Nuevo Condomina, er rétt hjá Murcia sem er í 65 km. fjarlægð frá La Rotonda eða um 45 mín. akstur. Þessi verslunarmiðstöð er mun stærri en hinar og þarna er að sjálfsögðu að finna allar þekktustu verslanirnar einnig er þar Primark búð þar sem hægt er að fá föt á alla fjölskylduna á ótrúlega lágu verði.   Þarna er einnig að finna mikinn fjölda góðra veitingastaða og kaffihúsa.

Skammt frá Nuevo Condomina, er IKEA verslun sem er ekki síður stór og með fjölbreyttara vöruúrval heldur en við þekkjum frá Íslandi á verulega góðu verði.   

Í Cartagena sem er um 30 mín akstur frá La Rotonda er nýbúið að opna mjög stóra verslunarmiðstöð Espacio Mediterraneo sem er einkar glæsileg þar sem hægt er að finna allar þekktustu verslanirnar.

Í Alicante er einnig að finna margar verslunarmiðstöðvar með fjölmörgum verslunum og veitingastöðum og má þar m.a. nefna El Corte Ingles, Gran Via og Plazamar 2. Skammt norðan við Alicante, um 60 mín. keyrsla frá La Rotonda, er Outlet Store Alicante þar sem er að finna mikið úrval af góðum búðum sem selja vörur á góðu verði. Til dæmis: NIKE, Puma, Levi´s, Desigual, Mango og margar fleiri. Einnig eru margar  Decathlon íþróttavörubúðir á Costa Blanca svæðinu þar sem hægt er að gera mjög góð kaup á vörum frá þekktustu íþróttavöruframleiðendunum.

Latest comments

24.10 | 10:32

Sæll Ásgeir. Handboltaskólinn verður haldinn sumarið 2023. Sendu mér tölvupóst á netfangið: arnistef@simnet.is
Þá mun ég senda þér allar upplýsingar.

23.10 | 21:10

Sæll. Gæti ég fengið upplýsingar um hvort handboltaskóli verði haldinn sumarið 2023?

12.09 | 16:08

Góðan dag, er hægt að sækja um 2 hús í Villa Martin Spáni á sama tíma

06.04 | 14:26

Sæl Ragnhildur. Sendu mér tölvupóst á netfangið arnistef@simnet.is

Share this page