Torrevieja á Spáni: Nýr valkostur fyrir handboltalið sem vilja fara í æfingabúðir.

Hér er um að ræða nýjan valkost í sólinni fyrir handboltalið sem vilja fara í æfingabúðir. Boðið er upp á gistingu á íbúðahóteli með fullu fæði, bílaleigubíla og frábæra æfingaaðstöðu. Það tekur aðeins 10 mín að keyra frá hótelinu á æfingarnar. Hótelið er mjög vel staðsett, í sömu götu eru 30-40 veitingastaðir, margar verslanir og það tekur aðeins 8 mín að ganga á ströndina.

 Æfingabúðirnar eru með milligöngu Árna Stefánssonar handboltaþjálfara

  • Árni Stefánsson bjó í Torrevieja á Spáni árin 2007 og 2008 við ferðamannaþjónustu og fékk þá hugmynd að hægt væri að bjóða upp á góðar æfingabúðir í handbolta.
  • Hann bjó á íbúðahótelinu La Rotonda og kynntist vel þeim sem þar stjórna. Þar er frábær aðstaða fyrir ferðamenn og veitingastaður á neðstu hæðinni þar sem hægt er að fá morgunmat, hádegismat og kvöldmat eins og liðin sjálf vilja, setja bara upp óskir og það er orðið við þeim.
  • Meistaraflokkur HK í handbolta kom í æfingabúðir í 10 daga árið 2007, æfðu af krafti, spiluðu einn æfingaleik og svo setti úrvalsdeildarlið Torrevieja upp æfingamót með þátttöku þriggja liða sem tókst mjög vel. Í kjölfarið kom upp sú hugmynd að gera þetta oftar.
  • Meistaraflokkur ÍBV í handbolta fór æfingaferð í viku í lok ágúst 2011. Þar var á ferð 27 manna hópur, þar af 23 leikmenn, þeir æfðu tvisvar á dag og voru mjög ánægðir.
  • Hægt er að fara í æfingabúðir bæði á undirbúningstímabilinu og einnig í janúar ef áhugi er fyrir hendi.

Æfingabúðirnar eru í Torrevieja á Spáni

  • Flogið er til Alicante á Spáni, þar sem teknir eru bílaleigubílar og keyrt í 45 mín á Hótel La Rotonda sem er í Cabo Roig-hverfinu í Torrevieja. Mjög auðvelt er að rata á hótelið, það þarf bara að fylgja sama vegi (N-332) allan tímann.
  • Gist er í snyrtilegum íbúðum, 4 saman í íbúð. Á neðstu hæð hótelsins er matsölustaðurinn Manhattan, þar sem borðaður er morgunmatur og hádegismatur og svo er kvöldmaturinn borðaður á einhverjum hinna fjölmörgu veitingastaða sem eru í sömu götu.

Íþróttahöllin

Íþróttahöllin sem æft er í heitir Palacio de los Deportes de Torrevieja “Infanta Cristina”

  • Glæsileg höll þar sem handboltaliðið Balonmano Torrevieja æfir og keppir. Birkir Ívar Guðmundsson og Einar Örn Jónsson léku á sínum tíma með þessu félagi
  • Þarna er frábær aðstaða til að æfa, góðir íþróttasalir með öllu sem þarf að vera. Liðin fá lykil að búningsklefa sem þau hafa út af fyrir sig allan tímann og geta því geymt bolta og annað þar á milli æfinga.
  • Glæsileg lyftingaaðstaða er í næsta húsi þar sem hægt er að æfa eins og þörf er á.
  • Við hliðina á höllinni er frjálsíþróttavöllur með tartanbrautum þar sem gott er að hlaupa.
  • Fyrir utan höllina er sundlaug með sólbaðsaðstöðu sem er opin allan daginn.

 Gist er á La Rotonda íbúðahótelinu

  • La Rotonda íbúðahótelið er í Cabo Roig, úthverfi borgarinnar Torrevieja. Íbúðirnar eru með hjónaherbergi, gestaherbergi með tveimur rúmum og svefnsófa í stofu, þannig að þar geta gist allt að 6 manns. Íbúðirnar eru vel búnar húsgögnum og þær eru með þvottavél, gervihnattarsjónvarpi með yfir 70 stöðvum, DVD-spilara og öllum nauðsynlegum húsbúnaði. Loftkæling er í öllum íbúðunum. Allar íbúðirnar eru með mjög góðar svalir, með borði og stólum. Í hótelgarðinum er sundlaug sem er til afnota fyrir gesti, góð sólbaðsaðstaða og góður veitingastaður.
  • Á neðstu hæð er móttaka sem er opin frá 9-19, þar eru nokkrar tölvur þar sem hægt er að komast í samband við internetið einnig er hægt að fá nettenginu gegn gjaldi.  Hverri íbúð fylgir sér bílastæði í kjallara. Í húsinu eru tvær lyftur.  Á neðstu hæð hússins er góður veitingastaður, Manhattan, þar sem hægt er að fá morgunmat og hádegismat og þar er einnig kjörbúð sem er opin allan sólarhringinn, mjög vinsælt kaffihús og bakarí, Le Paradis,  búðir með smávöru, veitingastaður, take-away staður þar sem hægt er að kaupa mat og ýmis önnur þjónusta .
  • Hótelið er í örstuttu göngufæri eða ca. 8 mín frá hinni glæsilegu Playa Caleta strönd sem er á Costa Blanca ströndinni. Frá hótelinu er mjög stutt (2-5 min. gangur) í alla þjónustu, Rétt handan við hornið er glæsileg gata með miklum fjölda veitingastaða (30-40 mjög góðir staðir) fjöldi vínveitingahúsa og pöbba, hraðbanki er handan við götuna og internetcafe. Þá er einnig stutt í heilsugæslu og apótek. Mjög góðir stígar eru meðfram ströndinni þar sem skemmtilegt er að ganga eða skokka.
  • Veðurfar og hitastig á Torreviejasvæðinu er með eindæmum gott og samkvæmt skýrslu Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) þá er þar besta veðurfar í allri Evrópu. Sólardagar á ári eru í kringum 325 með yfir 2800 sólarstundum á ári og meðalhiti í ágúst er 32 gráður á Celsíus og sólin skín í 11 stundir á degi hverjum.
  • Örstutt er í alls konar afþreyingu, svo sem vatnsrennibrautagarð, keilu- og leiktækjasal, go-cart-brautir, tennis og verslunarmiðstöðina La Zenia Boulevard en þetta er allt innan við 10 min. keyrslu frá La Rotonda. Fimm glæsilegir golfvellir eru líka í næsta nágrenni hótelsins.

Latest comments

24.10 | 10:32

Sæll Ásgeir. Handboltaskólinn verður haldinn sumarið 2023. Sendu mér tölvupóst á netfangið: arnistef@simnet.is
Þá mun ég senda þér allar upplýsingar.

23.10 | 21:10

Sæll. Gæti ég fengið upplýsingar um hvort handboltaskóli verði haldinn sumarið 2023?

12.09 | 16:08

Góðan dag, er hægt að sækja um 2 hús í Villa Martin Spáni á sama tíma

06.04 | 14:26

Sæl Ragnhildur. Sendu mér tölvupóst á netfangið arnistef@simnet.is

Share this page